Sigurður Líndal, prófessor, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, að hann sæi enga þörf á heildarendurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar.
Sigurður sagðist ekki telja gott ef heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar færi fram með ímynduð vandamál að leiðarljósi. Þá væri hætta á, að tískufyrirbæri yrðu sett inn í stjórnarskrána. Varhugavert væri, að setja þar yfirlýsingar, almenns eðlis, sem enginn ágreiningur sé um en merkingin kunni þó að vera óljós.
Sigurður sagði langbest að taka stjórnarskrár fyrir og breyta þeim í áföngum ef þurfa þætti. Ef eitthvað gerðist, sem virkilega bryti á og reynst hefði öðruvísi en til var ætlast, væri sjálfsagt að taka það fyrir. Einnig mætti gera viðbætur við stjórnarskrá.
„Ég tel að stjórnarskráin eigi að vera gömul," sagði Sigurður.
Hann sagði, að andrúmsloftið eftir hrunið haustið 2008 hefði verið í þá átt, að breyta þyrfti stjórnarskránni. „En ég hef enga trú á að hægt sé að breyta hugarfari fólks með pennastriki," sagði Sigurður.