Lögreglan í Ósló handtók í kvöld fimm einstaklinga í og við klúbbhús mótorhjólagengisins Bandidos í Etterstad. Einn var fluttur á sjúkrahús. Skotum var hleypt af og einn barinn með hafnarboltakylfu, að sögn talsmanns lögreglunnar í samtali við Verdens Gang. Enginn varð fyrir skotunum, að sögn lögreglunnar.
Sá sem særðist gat gengið og var með meðvitund, að sögn lögreglunnar. Lögreglan handtók tvo menn fyrir utan húsið og þrjá inni í því. Sá sem meiddist var handtekinn inni í húsinu. Lögreglan gaf ekki upp hvort þeir handteknu eða sá meiddi tilheyri mótorhjólaklúbbnum.
Fólk sem býr í nágrenni við klúbbhúsið gerði viðvart um skotin sem það heyrði fyrr í kvöld. Lögreglan vinnur enn að rannsókn á vettvangi.