Samstarfshópur á vegum Þjóðkirkjunnar og annarra kristinna trúfélaga mun n.k. þriðjudag 31. ágúst hleypa af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi. Alls taka 15 trúfélög þátt í átakinu.
Kortum og plakötum verður dreift í allar kirkjur og kristna söfnuði landsins til áréttingar og undirstrikunar á því að kynferðisofbeldi verði aldrei liðið í kristnum söfnuðum.
Á kortunum og plakötunum er fjallað um hvar kynferðislegt ofbeldi getur átt sér stað. Kynferðislegt ofbeldi er skilgreint, algengar tilfinningar þeirra sem lenda í kynferðislegu ofbeldi tilgreindar auk þess sem fólki er bent á ýmsar leiðir sem í boði eru fyrir þá sem hafa lent í slíku ofbeldi.
Kirkjurnar sem taka þátt í þessu átaki eru: Betanía, CTF-Kærleikur, Fríkirkjan í Hafnarfirði, Fríkirkjan í Reykjavík, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnusöfnuðirnir á Íslandi, Íslenska kristkirkjan, Kaþólska kirkjan, Kefas, Kirkja sjöunda dags aðventista, Krossinn, Óháði söfnuðurinn, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Vegurinn og Þjóðkirkjan.