Vill afgreiða tillögu um ESB-viðræður

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Mörður Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, lýs­ir á bloggvef sín­um þeirri skoðun, að Alþingi eigi strax í haust að af­greiða þings­álykt­un­ar­til­lögu, sem ligg­ur fyr­ir þing­inu um að  hætta aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið.

Mörður seg­ir að helst eigi að af­greiða til­lög­una nú þegar þing kem­ur sam­an í sept­em­ber. Vís­ar hann m.a. til þess, að and­stæðing­ar aðild­ar­viðræðnanna hafi vísað mjög til til­lög­un­ar und­an­farið og full­yrðu að ekki sé leng­ur fyr­ir hendi meiri­hlut­inn frægi frá 16. júlí í fyrra, sem fól rík­is­stjórn­inni að óska viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið um aðild.

Þá seg­ir Mörður, að efa­semd­ir um að rík­is­stjórn í aðild­ar­viðræðum hafi þing­meiri­hluta að baki sér veiki stöðu Íslands í samn­ingaviðræðunum  og dragi úr lík­um á að fram ná­ist viðun­andi samn­ing­ur. Það þyki  mörg­um and­stæðing­um aðild­ar hið besta mál, því þeir vilji að samn­ing­ur­inn verði sem allra verst­ur. Þannig er meiri mögu­leiki að fella hann í þjóðar­at­kvæðagreiðslunni.

„Með því að af­greiða Heims­sýn­ar­til­lög­una fæst úr þessu skorið, og staða Íslend­inga í samn­ingaviðræðunum  mundi batna að mun að henni felldri.

Og hvað ef hún yrði samþykkt? Þá er að taka því – en slík samþykkt leiddi vænt­an­lega beint eða óbeint til nýrra alþing­is­kosn­inga – þar sem ESB-málið yrði í kast­ljósi. Það er líka eðli­leg niðurstaða ef kjós­end­ur geta ekki leng­ur treyst þeim meiri­hluta sem þeir fólu síðast að fara í aðild­ar­viðræður," seg­ir Mörður.

Bloggvef­ur Marðar Árna­son­ar

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka