Vill afgreiða tillögu um ESB-viðræður

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsir á bloggvef sínum þeirri skoðun, að Alþingi eigi strax í haust að afgreiða þingsályktunartillögu, sem liggur fyrir þinginu um að  hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Mörður segir að helst eigi að afgreiða tillöguna nú þegar þing kemur saman í september. Vísar hann m.a. til þess, að andstæðingar aðildarviðræðnanna hafi vísað mjög til tillögunar undanfarið og fullyrðu að ekki sé lengur fyrir hendi meirihlutinn frægi frá 16. júlí í fyrra, sem fól ríkisstjórninni að óska viðræðna við Evrópusambandið um aðild.

Þá segir Mörður, að efasemdir um að ríkisstjórn í aðildarviðræðum hafi þingmeirihluta að baki sér veiki stöðu Íslands í samningaviðræðunum  og dragi úr líkum á að fram náist viðunandi samningur. Það þyki  mörgum andstæðingum aðildar hið besta mál, því þeir vilji að samningurinn verði sem allra verstur. Þannig er meiri möguleiki að fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

„Með því að afgreiða Heimssýnartillöguna fæst úr þessu skorið, og staða Íslendinga í samningaviðræðunum  mundi batna að mun að henni felldri.

Og hvað ef hún yrði samþykkt? Þá er að taka því – en slík samþykkt leiddi væntanlega beint eða óbeint til nýrra alþingiskosninga – þar sem ESB-málið yrði í kastljósi. Það er líka eðlileg niðurstaða ef kjósendur geta ekki lengur treyst þeim meirihluta sem þeir fólu síðast að fara í aðildarviðræður," segir Mörður.

Bloggvefur Marðar Árnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert