„Átakamikið og áhrifamikið“

Samveran var í Vídalínskirkju í Garðabæ.
Samveran var í Vídalínskirkju í Garðabæ. Árni Sæberg

„Þetta var bæði óskap­lega átaka­mikið og áhrifa­mikið,“ sagði séra Gunn­ar Rún­ar Matth­ías­son, formaður fagráðs um meðferð kyn­ferðis­brota inn­an Þjóðkirkj­unn­ar. Hann var í hópi nær fimm­tíu presta sem hlýddu á frá­sagn­ir Sigrún­ar Pálínu Ingvars­dótt­ur og fjög­urra annarra þolenda kyn­ferðis­legs of­beld­is af hálfu fyrr­ver­andi bisk­ups.

Sam­ver­an var í Vídalíns­kirkju í dag. Fagráðið hélt utan um sam­ver­una en stofnaði ekki til henn­ar, að sögn Gunn­ars.  Hann kvaðst hafa sent prest­um tölvu­skeyti um sam­ver­una síðastliðið laug­ar­dag­kvöld.

„Rétt tæp­lega fimm­tíu prest­ar komu með 36 stunda fyr­ir­vara. Það sýn­ir að fólk tek­ur það al­var­lega að heyra og virða þess­ar sög­ur,“ sagði Gunn­ar. Hann sagði að til sam­ver­unn­ar hafi komið marg­ir prest­ar af höfuðborg­ar­svæðinu og ná­grenni þess, þeir sem ekki voru bundn­ir í at­höfn­um eða af öðru. Aðrir komu lengra að.

Gunn­ar sagði fund­inn í dag hafa verið að frum­kvæði Sigrún­ar Pálínu Ingvars­dótt­ur. Nokkr­ir prest­ar hittu hana á laug­ar­dag­inn var. Þar kviknaði sú hug­mynd að bjóða fleiri prest­um til sam­veru með henni. Sigrún Pálína lagði þá til að fleiri þolend­um yrði einnig boðið.

„Þetta var sam­vera til áheyrn­ar. Við ákváðum fyr­ir­fram að þetta tæki einn og hálf­an tíma og við stóðum við það. Sam­ver­an var í kirkju­skip­inu sjálfu, þær sátu við borð fram­an við alt­arið og töluðu við okk­ur. Við prest­arn­ir sát­um í kirkju­skip­inu þannig að þær voru prest­ar okk­ar í dag,“ sagði Gunn­ar. 

Vildu heyra reynslu kvenn­anna 

Fjór­ar kon­ur sögðu sögu sína og frá­sögn þeirr­ar fimmtu, sem var for­fölluð vegna veik­inda, var les­in upp.

„Mark­mið okk­ar var að heyra sár­in þeirra,“ sagði Gunn­ar. „Þetta var ekki fund­ur ákv­arðana eða álykt­ana, held­ur fyrst og fremst til að ganga inn í og heyra reynslu þeirra. Við vilj­um láta það sitja í hug­um okk­ar og treyst­um að það beri ávöxt sem við sjá­um ekki fyr­ir.

Það er ekki bara erfitt að heyra inn­tak sagna þeirra. Það reyn­ir ekki síður á að heyra hve ofboðslega þung reynsla þeirra hef­ur verið, ekki bara af brot­un­um held­ur af reynslu þeirra af að koma fram í kirkj­unni og í sam­fé­lag­inu. Hvað þær hafa þurft að þola mikið og vera allt að því kennt um þann vanda sem upp er kom­inn.

Einnig hvað þetta hef­ur verið þungt fyr­ir fjöl­skyld­ur þeirra og aðstand­end­ur. Maður tek­ur ofan fyr­ir því hvað aðstand­end­ur þeirra og vin­ir hafa verið traust­ir og dýr­mæt­ir,“ sagði Gunn­ar.

Óvíst er hvort fram­hald verður á sam­veru af þessu tagi. Gunn­ar sagði stund­ina í dag hafa verið mjög áhrifa­mikla og kvaðst reikna með að hún verði hon­um lengi í minni.

Þungu fargi létt af

Ólöf Pitts Jóns­dótt­ir, ein kvenn­ana fjög­urra, sagði við Rík­is­út­varpið í kvöld, að hún væri feg­in og að þungu fargi sé af sér létt en málið hafi verið með henni í bráðum 30 ár.

Ólöf sagðist hafa ætlað með þetta í gröf­ina en væri ánægð með af­sök­un­ar­beiðni prest­anna, sem hefði verið ein­læg og komið frá hjart­anu. Marg­ir hafi verið með tár­in í aug­un­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert