Spænskur ferðalangur, sem óskað hafði aðstoðar vegna bensínleysis á fjöllum, fannst um klukkan 21.30 í kvöld við Rauðufossafjöll. Þá höfðu konur úr Flugbjörgunarsveitinni á Hellu leitað mannsins í 3-4 klukkutíma. Staðsetning sem hann gaf upp samkvæmt GPS-tæki reyndist vera röng.
Það varð manninum til bjargar að hann náði símasambandi í gsm-síma með því að fara upp á hól. Þaðan hringdi hann í dag og óskaði aðstoðar því hann var orðinn bensínlaus. Nóg rafmagn var á símanum og var hægt að hafa samband við hann.
Svanur S. Lárusson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sagði eftir samtöl við manninn að hann hafi orðið bensínlaus síðastliðna nótt og orðið að sofa í bílnum. Maðurinn var á bílaleigubíl og með GPS-tæki frá bílaleigunni. Hann gaf upp staðsetningu samkvæmt því.
Tvær konur fóru af stað með bensín á fjallabíl Flugbjörgunarsveitarinnar síðdegis í dag og óku að staðnum sem maðurinn hafði gefið upp. Ökuferðin þangað tók um tvo tíma. Manninn var hvergi að sjá á þeim slóðum og ekki heldur bílinn. Mikið er af slóðum í hraununum norðan og austan við Heklu, þar sem maðurinn taldi sig vera staddan.
Farsími hans var síðan miðaður út frá sendi sem nam sendingar símans hans. Samkvæmt þeirri miðun var maðurinn staddur miðja vegu á milli Heklu og Laufafells, undir Rauðufossafjöllum.
Konurnar óku þarna hvern slóðann á fætur öðrum sem er þarna í hraununum og höfðu ekið framhjá staðnum þar sem maðurinn reyndist svo vera. Þegar þær voru að aka annan slóða sáu þær allt í einu glitta í bíl mannsins.
Svanur sagði að maðurinn hafi verið ákaflega glaður þegar fjallkonurnar úr Flugbjörgunarsveitinni birtust og færðu honum bensínið. Hann var orðinn nokkuð skelkaður og langaði ekki að eiga aðra nótt í köldum bílnum. Maðurinn ákvað að fylgja konunum í Flugbjörgunarsveitinni til byggða.