Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa farið fram á það við lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu að skoðuð verði auglýsing á vegum Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í samvinnu við Golfsamband Íslands. Samtökin telja auglýsinguna brot á áfengislögum.
„Börn og ungmenni eiga lögvarðan rétt á því að vera laus við áfengisauglýsingar og ekki síst af aðilum innan íþróttahreyfingarinnar eins og því miður er raunin í þessu tilfelli," segir í bréfi sem Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, sendir lögreglustjóraembættinu með afriti m.a. til dómsmálaráðherra og Barnaverndarstofu. Segir Árni að þar mæri Golfsamband Íslands „af ákafa margverðlaunaða áfengistegund" og allt efni auglýsingarinnar vísi til þess að GSÍ geti ekki sannað að um léttöl sé að ræða, þó svo að því orði „sé komið fyrir af mikilli hógværð og algjörlega úr samhengi við allt annað."
Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ, segir að um sé að ræða hefðbundna léttölsauglýsingu eins og hafi verið samþykktar hér með lögum. Golfsambandið geri kröfu á sína samstarfsaðila, í þessu tilfelli Ölgerðina, um að þeim reglum sé fylgt og það hafi verið gert. „Ég held að þetta sé nú mjög orðum aukið, það kemur skýrt fram að um léttöl sé að ræða og því engin lög brotin," segir Hörður. „[Foreldrasamtökin] hafa sína skoðun á þessu og það er sama hvort það er íþróttahreyfingin eða aðrir, þau hafa gagnrýnt að þessar auglýsingar séu heimilar en stjórnvöld hafa úrskurðað að þær séu það. Við erum ekki bærir til að setja lög um annað. Ölgerðin er samstarfsaðili Golfsambandsins og þeir birta þarna auglýsingu sem kynnir þeirra vörumerki í fullkomnu samræmi við lög."
Hörður segir að GSÍ hafi birt sambærilegar auglýsingar áður í sínum eigin tímaritum og lögregluyfirvöld hafi ekki séð ástæðu til að gera athugasemd við það. Auglýsingin sem um ræðir birtist í Fréttablaðinu 28. ágúst og er þar léttöl auglýst samhliða Egils Gull golfmóti GSÍ á Hellu.