Á sama tíma og samkirkjulegt átak gegn kynferðislegu ofbeldi hefst á vegum þjóðkirkjunnar og annarra kristinna trúfélaga verða fimm erindi um kirkjuna og kynferðisafbrot haldin á vegum guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.
Ein þeirra sem flytur fyrirlestur í HÍ er Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði. „Í fyrsta lagi mun ég setja þessa umræðu sem hér er nú í stærra samhengi en þetta er hluti af mjög stóru vandamáli kirknanna og ég mun einblína á það þegar það eru þeirra eigin starfsmenn sem beita kynferðislegu ofbeldi. Ég mun greina frá reynslu fólks, sem hefur starfað mjög lengi í tengslum við þetta málefni í Bandaríkjunum, af því hvernig kirkjurnar bregðast við. Með því geri ég ráð fyrir að fólk sjái að yfirleitt hafi kirkjan hér ekki brugðist við á réttan hátt, líkt og ytra. Loks ætla ég velta því upp hvernig fórnarlömbin óska helst eftir að brugðist sé við. Það er ákveðið ferli í nokkrum atriðum og það fyrsta er að fórnarlömbin vilja fá réttlæti í þeirri merkingu sem þau leggja í það hugtak. Þar er fyrsti punkturinn að fá að segja sögu sína og segja sannleikann sem er einmitt það sem Guðrún Ebba [Ólafsdóttir] gerði og Sigrún Pálína [Ingvarsdóttir] óskaði eftir að fá að gera. Þannig að við erum í raun stödd á byrjunarreit og nú er að taka næsta skref. Síðan tengi ég þetta við kristilega guðfræði með því að vera fórnarlömbum kynferðisofbeldis miskunnsami Samverjinn og heimfæri þá sögu upp á konu sem hefur verið nauðgað,“ segir Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði, sem heldur fyrsta fyrirlesturinn í hádeginu í dag.
Almennileg umræða skapast
Sólveig Anna segist vonast til að fyrirlesturinn sæki fólk sem hafi skoðanir á því hvernig kirkjan geti orðið örugg fyrir einstaklinginn. Það markmið sé í raun útgangspunkturinn og yfirskrift fyrirlestranna. „Það verður að segjast að margt er undir í þessari umræðu og í raun og veru er núna að skapast almennileg umræða. Fólk segir meira en áður og allir eru mun meðvitaðri um það að betra sé að segja það sem maður hugsar og draga ekkert undan, þó alltaf verði að stíga varlega til jarðar,“ segir Sólveig Anna.Guðbjörg sagði í sinni predikun að: „Allt stjórnkerfið virðist núna þegar litið er til baka hafa stutt fráfarandi biskup og ekki síður virðist hann hafa haft samfélagið með sér, þar með talda æðstu ráðamenn og konur samfélagsins.“
Í samtali við Morgunblaðið sagðist Guðbjörg ekki hafa haft ákveðna aðila stjórnvalda í huga í predikun sinni. „Ég vísa þarna til þess sem ég hef kynnt mér í fjölmiðlaefni frá þessum tíma. Réttast er að spyrja þá einstaklinga sem þarna voru við völd hvernig þeim þykir hafa verið brugðist við. Það er langur tími síðan og vissulega var andrúmsloftið öðruvísi. En nú ber bæði okkur hjá kirkjunni og öðrum sem voru við völd að horfast í augu við þau mistök sem við gerðum,“ segir Guðbjörg og bætir við að einnig hafi aðgangur Ólafs að fjölmiðlum verið gríðarlegur og ekki til jafns við þann aðgang sem konurnar höfðu. „ Það er mikilvægt að nýta þetta tækifæri til að taka vel til hjá okkur,“ segir Guðbjörg.