Nærri samþykki með skilyrðum

ECA vill nýta stóra flugskýlið og byggja upp aðstöðu á …
ECA vill nýta stóra flugskýlið og byggja upp aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. mbl.is

ECA, hollenskt fyrirtæki sem hyggst setja upp aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir óvopnaðar herþotur, er nálægt því að fá samþykki íslenskra stjórnvalda með skilyrðum. Fréttavefur Financial Times hefur þetta eftir ónefndum embættismönnum.

Viðræður fyrirtækisins og íslenskra stjórnvalda hafa staðið í meira en ár. Rætt hefur verið um að fyrirtækið leigi aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Fréttavefurinn segir að búið sé að útvega flest vottorð sem þurfi til að flytja þoturnar til Íslands. Búið er að útvega þann búnað sem þarf á jörðu niðri. 

Fréttavefurinn segir að það sé fjarri því að einhugur ríki um þetta verkefni innan ríkisstjórnar Íslands. Melville ten Cate, einn stofnenda ECA, segir ekkert grunsamlegt við áform hans um að kaupa herþotur frá Hvíta-Rússlandi fyrir 1,5 milljarða dollara og flytja þær til Íslands.

Þoturnar munu verða óvopnaðar og ekki búnar til að bera skotfæri. Því verður hægt að skrá þær sem borgaraleg flugför. Þær verða ekki notaðar til neinna heræfinga í íslenskri lofthelgi. 

ECA hafði áður augastað á Goose Bay í Kanada fyrir starfsemi sína en beindi áhuga sínum að Íslandi eftir að samningaviðræður við Kanadamenn fóru út um þúfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert