Fyrirhuguð fækkun ráðuneyta er illa undirbúin og óljóst hver sparnaðurinn af henni verður, að mati Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Birgir telur þá fyrirætlun meirihluta allsherjarnefndar að setja breytingar á sjávarútvegsráðuneytinu á ís vera sigur fyrir Jón Bjarnason.
„Ég er þeirrar skoðunar að málið sé algerlega ófullburða og að eðlilegast væri að ríkisstjórnin tæki það aftur til sín og undirbyggi málið áður en það kemur inn í þingið. Um er að ræða sameiningu ráðuneyta sem reyndar er búið að draga verulega úr miðað við þá stefnu sem málið hefur tekið í allsherjarnefnd Alþingis.
Það lítur út fyrir að atvinnuvegaráðuneytið og breytingar á auðlindamálum og annað þess háttar verði látið bíða. Það sem verið er að tala um núna er sameining dómsmála- og samgönguráðuneytis annars vegar og félagsmála- og heilbrigðisráðuneytis hins vegar.“
Úttektir skortir
Birgir segir ríkisstjórnina hvorki styðjast við mat á áhrifum af fyrri sameiningum ráðuneyta né við útfærðar hugmyndir um ávinning af sameiningu þeirra nú.
„Málið hefur ekki verið unnið þannig að það sé hægt að átta sig á því hvaða afleiðingar það kemur til með að hafa. Það hefur ekki farið fram nein úttekt á því hvernig fyrri breytingar á ráðuneytum, sem m.a. voru gerðar í fyrra og árið 2007, hafa reynst, hvaða sparnaður hefur náðst fram eða hagræðing af öðrum toga.
Það liggur ekki fyrir neitt um það hvernig eigi að ná fram þeim ávinningi sem boðaður er í greinargerð með frumvarpinu. Af þeirri ástæðu finnst mér algerlega ótímabært að afgreiða málið á þessu stigi.“
Báknið burt en með betri undirbúningi
- Sjálfstæðismenn hafa lengi talað fyrir því að ríkisbáknið minnki, samanborið slagorðið „báknið burt“. Af hverju styðjið þið ekki þessar fyrirætlanir nú?
„Við erum opnir fyrir því að skoða fækkun ráðuneyta og breytingu á verkaskiptingu þeirra og fleiri breytingar af því tagi sem máli skipta. Forsendan fyrir því að ríkisstjórn leggi fram frumvarp af þessum toga er hins vegar sú að hún vinni heimavinnuna sína og komi inn í þingið með frumvarp sem er tilbúið til afgreiðslu.
Ég held að upphaflegi tilgangurinn hafi verið sá að ná fram víðtækari breytingum en nú eru í spilunum og að áherslan nú sé sú að ríkisstjórnin vilji láta líta út fyrir að hún sé að gera eitthvað. Þetta er hluti af spuna.“
Sigur fyrir Jón Bjarnason
Birgir telur þá fyrirætlun meirihluta allsherjarnefndar að setja breytingar á sjávarútvegsráðuneytinu á ís vera sigur fyrir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
„Hvað varðar atvinnuvegaráðuneytin og umhverfis- og auðlindamálin sem ríkisstjórnarmeirihlutinn virðist ætla að geyma er alveg ljóst að Jón Bjarnason hefur unnið þann slag, eða að minnsta kosti þessa lotu, í slagnum,“ segir Birgir Ármannsson.