Sjávarútvegsráðuneytið á ís

Íslenski þorskurinn heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Íslenski þorskurinn heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Rax / Ragnar Axelsson

Óvíst er hvort allsherjarnefnd Alþingis vísi frumvarpi um fækkun ráðuneyta aftur til afgreiðslu Alþingis með umsögn eða hvort hlé verði gert á afgreiðslu frumvarpsins og það sent til meðferðar í þinginu í október. Útlit er fyrir að beðið verði með breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Aðspurður hvers vegna útlit sé fyrir að beðið verði með breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vísar Árni Þór Sigurðsson, varaformaður nefndarinnar, til þess að talsverð vinna sé óunnin varðandi flutning verkefna frá ráðuneytinu til fyrirhugaðs umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Það sem eftir stæði af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu flyttist þá yfir í nýtt atvinnuvegaráðuneyti ásamt iðnaðarráðuneytinu.

Að sögn Árna Þórs eru allar líkur á að frumvarpið verði að lögum fyrir áramót en með samþykkt þess renna dómsmála- og samgönguráðuneytið inn í nýtt innanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið inn í nýtt velferðarráðuneyti.

Með því fækkar ráðuneytum og þar með ráðherrum úr 12 í 10.

Inntur eftir tímasetningum varðandi framtíð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins segir Árni Þór málin enn eiga eftir að skýrast.

Hann telur fækkun ráðuneyta almennt munu leiða til sparnaðar við rekstur yfirstjórnar þeirra. Hvað fækkun starfsfólks við ráðuneytin snerti sé ótímabært að ræða það á þessu stigi. Hitt sé ljóst að reynt verði að vernda störfin sem kostur er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert