Viðræður Evrópusambandsins (ESB), Íslands og Færeyja um makrílveiðar verða í Brussel í næsta mánuði. Vonast er til að þar takist að finna lausn á makríldeilunni, að því er fram kemur á fréttavefnum Fishupdate. Framkvæmdastjóri fiskveiða í ESB er væntanlegur til Færeyja og Íslands vegna deilunnar.
Tilkynnt var um fundarhöldin um nýliðna helgi.
Oliver Drewes, talsmaður ESB í fiskveiðimálum, segir að skoða eigi bakgrunn makríldeilunnar og leita lausna á fundunum. Einnig er talið að Maria Damanaki, framkvæmdastjóri fiskveiðimála ESB, fari í heimsóknir til Íslands og Færeyja einhvern tíma á næstu vikum til að mjaka málinu áfram.
Frú Damanaki kveðst hafa skrifað Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og sagt að það sé ómögulegt að réttlæta makrílkvótann sem Íslendingar úthlutuðu sínum útgerðum.
Íslendingar og Færeyingar segja að þeim hafi verið úthýst úr fjölþjóðlegum samningaviðræðum um makrílveiðarnar. Bæði löndin hafa því gefið út einhliða veiðiheimildir. Íslendingar gáfu leyfi til veiða á 130.000 tonnum af makríl og Færeyingar leyfðu veiðar á 85.000 tonnum. ESB segir þetta allt of mikið og að það muni skaða makrílstofninn.
„Þeir veiða miklu meira en hægt er að réttlæta með vísindalegum hætti,“ er haft eftir Oliver Drewes.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir sem kunnugt er að Íslendingar séu í fullum rétti til veiða í sinni fiskveiðilögsögu. Þeir njóti þeirra réttinda sem strandríki. Hann hefur einnig sagt að Íslendingar vilji komast að samkomulagi við aðrar þjóðir um veiðarnar.
Þá hafa talsmenn útgerðarmanna (LÍÚ) sagt að Íslendingar hafi jafn mikinn rétt til veiða í sinni lögsögu og sjómenn ESB í sinni lögsögu.