„Forsætisráðherra er bara að tala við fólk,“ sagði Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, þegar fréttamenn ræddu við hann utan við Stjórnarráðið í kvöld. Hann kvaðst ekki vita hvort hann yrði áfram ráðherra og sagði að engar ákvarðanir hafi verið teknar. Fyrst yrði að tala við alla.
Árni Páll kvaðst vona að málin skýrðust á morgun. Aðspurður um hvort ráðuneyti hans yrði sameinað öðrum, sagði hann Alþingi ráða því. „Vonandi verður sú sameining að veruleika, hún er mjög mikilvæg fyrir framtíð í velferðarþjónustunni,“ sagði Árni Páll.
Árni Páll sagði að í áliti allsherjarnefndar frá því á fundinum í dag sé
gert ráð fyrir sameiningu ráðuneytanna um næstu áramót.
Stjórnarfrumvarp um sameiningu ráðuneyta var á dagskrá allsherjarnefndar Alþingis í morgun. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að fækka ráðuneytum úr tólf í níu. Stefnt er að sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í
velferðarráðuneyti um áramótin og einnig dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og
sveitarstjórnarráðuneytis í innanríkisráðuneyti.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:
„Í frumvarpi þessu er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lögð til sameining dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í velferðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá er lagt til að heiti umhverfisráðuneytis verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti.“