Ályktun á misskilningi byggð

Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.
Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. mbl.is/Kristinn

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir að ályktun Bandalags háskólamanna virðist vera byggð á misskilningi. Bandalagið hafi ekki leitað til þeirra um að rökstyðja fjárfestingar sjóðsins, en sjálfsagt sé að verða við því.

„Í þessari ályktun er einhver misskilningur á ferðinni varðandi það að fjárfestingar séu ekki í samræmi við tilgang og skilmála sjóðsins," segir Finnbogi. „Enn fremur er rétt að árétta að það náttúrulega liggja fyrir bindandi skuldbindingar af hálfu sjóðanna. Þetta er eins og hvert annað hlutafjárloforð sem hefur verið gefið og þau eru ekki afturkölluð." Finnbogi segir að fullkomið gagnsæi sé í fjárfestingum sjóðsins.

„Rótin að þessari ályktun virðist vera þessi umræða um að Húsasmiðjan fylgi þessum pakka og hún sé í samkeppni við önnur byggingarfyrirtæki á markaðnum. En það er nú einu sinni svo að ef að lífeyrissjóðir mættu ekki fjárfesta í fyrirtækum sem eru í samkeppnisrekstri, þá gætu þeir ekki fjárfest því flest fyrirtæki eru í samkeppni við önnur og þannig viljum við hafa það til að hafa sem lægst vöruverð í landinu. Það þjónar ekki hagsmunum BHM að reyna að útiloka samkeppni."

Aðspurður hvort ekki sé rétt hjá BHM að varhugavert sé að sjóður á vegum lífeyrissjóða taki þátt í að ákveða hvaða fyrirtæki lifi af og hvaða fyrirtæki ekki segir Finnbogi að sú sé alls ekki raunin. „Það er misskilningur frá upphafi. Sjóðurinn var beinlínis stofnaður í þeim tilgangi að taka þátt í endurreisn íslensks efnahagslífs, sem hefur átt undir högg að sækja, þannig að það er óhjákvæmilegt. Við erum ekki að ákveða hvaða fyrirtæki munu og munu ekki lifa, sjóðurinn fjárfestir í fyrirtækjum sem menn telja að eigi sér rekstrargrundvöll. Þannig að við erum ekki að bjarga fyrirtækjum sem við teljum að lifi, það eru aðrir búnir að ákveða það og þau munu lifa hvort sem við komum að þeim eða ekki."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert