Beinagrind á borði ríkisstjórnar

Steypireyðurin í fjöruborðinu.
Steypireyðurin í fjöruborðinu. Ólafur Bernódusson

Beinagrind steypireyðar, sem nýlega rak á land á Skaga, kom á borð ríkisstjórnarinnar í morgun. Þó ekki bókstaflega. Þær Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra óskuðu eftir tveggja milljóna kr. fjárveitingu til að bjarga beinagrind steypireyðarinnar.

Í minnisblaði ráðherranna tveggja til ríkisstjórnarinnar segir m.a. að slíkur hvalreki sem varð í landi Ásbúða á Skaga sé sjaldgæfur. Þar er bent á að steypireyður sé stærsta dýr sem lifað hefur á jörðinni svo vitað sé. Hvalategundin hefur verið  alfriðuð frá 1966 og er enn í mikilli útrýmingarhættu.

Talið er að hér við land séu innan við þúsund steypireyðar. Mjög sjaldgæft er að heilar steypireyðar reki hér á land, vitað er um tvö óstaðfest tilvik frá árinu 1980. Ráðherrarnir benda á að engin beinagrind sé til af steypireyði hér á landi og aðeins örfáar til í heiminum. Slík beinagrind hafi því mikið sýningar- og fræðslugildi.

Einnig kemur fram að Náttúrufræðistofnun hafi þegar gert ráðstafanir til að varðveita beinagrindina. Nauðsynlegt er að taka skíði og bægsli hvalsins sem fyrst. Þá hefur Hafrannsóknastofnunin tekið sýni úr hvalnum.

Áætlaður kostnaður við að sækja beinagrind hvalsins, verka hana, flytja og geyma er áætlaður ekki undir tveimur milljónum króna. Því er ljóst að hvorki Náttúrufræðistofnun Íslands né Náttúruminjasafnið hafa fjárhagslegt svigrúm til að standa undir þessum aukakostnaði. 

Þá segja ráðherrarnir að skoða þurfi hvar best verði að varðveita beinagrindina til lengri tíma. Umhverfisráðuneytið og menntamálaráðuneytið munu ræða það mál að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka