Keilir gagnrýnir skýrslu

Frá varnarsvæðinu gamla á Keflavíkurflugvelli þar sem Keilir er með …
Frá varnarsvæðinu gamla á Keflavíkurflugvelli þar sem Keilir er með starfsemi.

„Enn og aftur leyfir starfsmaður Ríkisendurskoðunar sér að víkja frá ábendingum og athugasemdum og slá fram athugasemd án innistæðu," segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, um þá umsögn nýrrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Keili að opinbert fé til frumgreinakennslu skólans árin 2007–2010 hafi ekki allt runnið til hennar.

Hjálmar sagði, að öll skrefin í uppbyggingu skólans hafi verið stigin með vitund og væntanlega vilja hins opinbera.

„Við skiljum ekki af hverju þessi starfsmaður leyfir sér að setja svona fullyrðingu fram, enda hefur þetta þegar haft afar skaðleg áhrif. Nemendur og starfsfólk er felmtri slegið. Ég tel þessi vinnubrögð fyrir neðan allar hellur, frá upphafi og til enda,“ sagði Hjálmar.

Meginþungi gagnrýninnar lýtur að rekstri skólans með þeirri umsögn að óvissa sé um rekstrargrundvöllinn til lengri tíma litið.  Hjálmar segir, að Keilir hafi orðið þriggja ára í maí og það segi sig sjálft að á uppbyggingartímabili reyni mjög mikið á. Þá sé verið að fjárfesta og leggja út í ýmsan kostnað sem leiðir til taps.

„Við einsettum okkur svo hins vegar að skila þessu ári, fjórða starfsárinu, með rekstrarafgangi. Sjö mánaða uppgjör sýnir, svo ekki verður um villst, að við erum á áætlun og rúmlega það. Það er hins vegar alltaf óvissa um ríkisframlög. Það gildir hins vegar ekki aðeins um Keili, heldur alla skóla.“

Nánar verður rætt við Hjálmar í Morgunblaðinu á morgun. 

Óvíst hvort grundvöllur sé fyrir rekstri Keilis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert