Kjarasamningur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) við launanefnd sveitarfélaga (LN) var samþykktur naumlega í almennri atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna LSS en atkvæðagreiðslu lauk á hádegi í gær.
Samningurinn var undirritaður 20. ágúst sl. en hann byggir á tillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram þegar viðræður virtust vera að sigla í strand, samkvæmt tilkynningu frá LSS.
Alls voru 237 á kjörskrá. Atkvæði greiddu 213 eða 90%. Já sögðu 109 (51%). Nei sögðu 100 (47%). Auðir seðlar og ógildir voru 4 (2%)
Samningurinn var því samþykktur naumlega og boðuðum verkfallsaðgerðum hefur verið aflýst.
„Það er ástæða til að fagna þessari góðu kjörsókn en að sama skapi ber að túlka þennan nauma mun sem skýr skilaboð til forsvarsmanna LSS um að grípa miklu fyrr til aðgerða, í því skyni að ná nýjum kjarasamningi. Þá er ljóst í mínum huga að andstaða félagsmanna við nýgerðan kjarasamning skýrist meðal annars af því að samningurinn er ekki afturvirkur en eldri samnningur rann út 31. ágúst 2009 eða fyrir réttu ári. Meðan aðrir náðu fram launahækkunum báru félagsmenn LSS skarðan hlut frá borði,“ segir Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS, í fréttatilkynningu.
Samningur LSS við LN gildir frá 1. ágúst 2010 til 30. nóvember 2010. Undirbúningur fyrir gerð nýs kjarasamnings hefst því á allra næstu dögum.
„Að fenginni reynslu er fátt sem bendir til annars en að framundan séu erfiðar viðræður við LN. Það er sorglegt að grípa þurfi til verkfallsaðgerða til að fá viðsemjendur að samningaborði. Ef það er vinnulag sem LN ætlar að viðhafa, blasa við verkfallsaðgerðir af okkar hálfu strax í desember,“ segir Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS.