Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu heilbrigðisráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðherra um að áfengislögum verði breytt þannig að bann við áfengisauglýsingum verði virt.
Heilbrigðisráðuneytið segir, að áfengislög banni hvers konar auglýsingar á áfengi en mikill misbrestur sé á að farið sé eftir banninu. Áfengisauglýsingar blasi alls staðar við og megi t.d. nefna hversu áberandi þær voru í tengslum við HM í knattspyrnu á Ríkisútvarpinu.
Ráðuneuytið segir, að breyta eigi núgildandi lögum þannig að komið verði í veg fyrir að áfengisframleiðendur auglýsi drykki undir þeim formerkjum að verið sé að auglýsa óáfenga drykki þó í raun sé verið að höfða til áfengra drykkja.
Þá beri í síauknum mæli á því að áfengisframleiðendur kosti viðburði eða dagskrárliði í fjölmiðlum í auglýsingaskyni. Því sé talið nauðsynlegt að bann við áfengisauglýsingum nái jafnframt til kostunar.
Dómsmála- og mannréttindaráðherra mun á næstunni ljúka undirbúningi málsins, þ.á.m kalla eftir athugasemdum hagsmunaaðila. Frumvarp verður lagt fyrir haustþing.