Ögmundur bíður eftir Jóhönnu

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, segir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra ekki hafa komið að máli við sig vegna hugmynda um að hann snúi aftur í ríkisstjórn. Ögmundur kveðst tilbúinn að koma inn í stjórnina en fullyrðir þó að hann hafi ekki gert sér vonir um neinar tímasetningar.

„Ég þarf að láta forsætisráðherrann segja mér það áður en að ég segi af eða á í því efni.“

- Ef þú færð beiðni um að snúa aftur í ríkisstjórnina, muntu þá taka boðinu?

„Já, já. Það hefur alltaf legið fyrir að ég vilji sitja í ríkisstjórninni.“

- Mundu hafa sama aðstoðarmann og þú varst með sem heilbrigðisráðherra?

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það.“

- Hverjir hafa rætt við þig í kvöld?

„Jóhanna, sem hefur þetta með höndum, hefur ekki talað við mig enn sem komið er.“

- Hafa einhverjir úr Samfylkingunni komið að máli við þig í dag?

„Nei, enda er þetta á hendi forsætisráðherra.“

- Gylfi Magnússon, fráfarandi viðskiptaráðherra, segir það hafa legið lengi í loftinu að það yrðu gerðar breytingar á ríkisstjórninni. Kemur þetta þér á óvart, að þessi uppstokkun skuli verða gerð núna?

„Nei. Hún kemur ekki á óvart. Ég segi eins og Gylfi Magnússon að það hefur legið í loftinu lengi að breytingar yrðu gerðar á ríkisstjórninni. Þannig að þetta hefur verið í kortunum í nokkuð langan tíma.“

- Hefurðu þá átt von á því að snúa aftur í stjórnina fyrir áramót?

„Nei. Það hefur aldrei neitt fast verið í hendi og verður ekki fyrr en ég fæ að heyra það frá forsætisráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka