Öllum sagt upp hjá Avant

Skrifstofur Avant við Suðurlandsbraut.
Skrifstofur Avant við Suðurlandsbraut. mbl.is/Jón Pétur

Öllu starfsfólki fjármögnunarfyrirtækisins Avant var sagt upp í gær. Alls starfa 29 manns hjá fyrirtækinu og munu starfsmenn vinna út uppsagnartímann sem er þrír mánuðir.

Að sögn Friðjóns Arnar Friðjónssonar, formanns bráðabirgðastjórnar sem Fjármálaeftirlitið skipaði yfir Avant í síðasta mánuði, standa vonir til þess að stór hluti starfsmanna verði endurráðinn áður en uppsagnafrestur rennur út.

Friðjón Örn segir að þrátt fyrir að öllu starfsfólki hafi verið sagt upp þá séu enn í gangi nauðasamningaumleitanir. Hann segir að það hafi verið talið nauðsynlegt að segja starfsmönnum upp vegna þeirrar stöðu sem er hjá fyrirtækinu. „En það er von til þess að stór hluti starfsfólksins verði endurráðinn," segir Friðjón í samtali við mbl.is.

Hann segir að framtíð fyrirtækisins velti á því hvort það takist að ná fram þeim nauðasamningi sem er í smíðum núna. 

Að sögn Friðjóns ganga viðræður við helstu kröfuhafa vel en stærstur þeirra er Landsbankinn.

„Viðræðurnar eru unnar í nánu samráði við helstu kröfuhafa og Landsbankinn hefur léð máls á því að stigið verði formlegt skref  til nauðasamninga með formlegri beiðni til héraðsdóms sem ég er að undirbúa," segir Friðjón.

Friðjón segir að vonir standi til að þetta nái í gegn en miklu skipti, hvað varðar framtíð Avant, niðurstaða Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin. Verður málið flutt í Hæstarétti þann 6. september nk. Fjárhagsgrundvöllur Avant ræðst af þeirri niðurstöðu.

Avant var áður í eigu Askar Capital. Stjórn Aska samþykkti í júlí að óska eftir slitameðferð á félaginu hjá dómstólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert