„Það kemur allt í ljós“

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Ernir

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, kvaðst ekki vita hvort hún verði áfram ráðherra þegar fréttamenn ræddu við hana framan við Stjórnarráðið í kvöld. „Ég veit það ekki, það kemur allt í ljós,“ sagði Katrín.

Hún vildi ekki segja neitt að svo stöddu um sameiningu ráðuneyta. „Hér var bara verið að fara yfir málin og taka stöðuna. Þetta kemur allt í ljós þegar pakkinn er tilbúinn,“ sagði Katrín. 

Þingflokksfundur Samfylkingarinnar verður klukkan 10 í fyrramálið. Katrín sagði að það yrði hefðbundinn vinnufundur vegna þess að þing væri að koma saman á ný á fimmtudaginn. Breytt ráðherraskipan verður því ekki til umræðu á þeim fundi, samkvæmt orðum Katrínar.

Sem kunnugt er hefur samstarfsflokkur Samfylkingarinnar, VG, verið ósáttur við sameiningu ráðuneyta. Aðspurð um hvort ráðuneyti yrðu sameinuð í óþökk samstarfsflokksins sagði Katrín: 

„Það verður ekki vaðið yfir einn né neinn. Í stjórnarsáttmála er sameining ráðuneyta og það hefur verið unnið að þeim, en sumt tekur lengri tíma en annað. Það þarf að fara í gegnum stofnanir og aðskilja ýmsa starfsemi.  Þetta er ákveðið í stjórnarsáttmála þannig að það er ekki yfir neina menn vaðið í því.“

Hún sagði að báðir stjórnarflokkarnir stæðu að stjórnarsáttmálanum og að hann hafi ekki verið skrifaður einungis af öðrum flokknum. 

Aðspurð um hvort Jóhanna Sigurðardóttir hafi boðað einhverja úr VG á fund kvaðst Katrín ekki vita það. Hún kvaðst gera ráð fyrir að ráðherramál VG séu í höndum forystu VG en ekki forystu Samfylkingarinnar. 

Katrín kvaðst ekki geta svarað neinu um hvort von væri á nýjum ráðherra úr röðum Samfylkingarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert