Allir almennir notendur munu vera komnir aftur með rafmagn eftir bilun í dreifikerfi Landsnets í kvöld. Ekki er búið að greina orsök bilunarinnar, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landsnets. Rafmagnslaust varð m.a. á Vopnafirði, hluta Egilsstaða og á Héraði og á Höfn í Hornafirði. Víðar urðu truflanir.
Tvö töluvert mikil högg komu á raforkudreifikerfið. Ekki er vitað hvað olli þeim, en orsakarinnar er leitað. Við bilunina leystist út hluti Byggðalínunnar og fór raforkukerfið í þrjá hluta, ef svo má segja. Það er sagt geta verið eðlileg viðbrögð kerfisins við truflunum.
Auk staðanna fyrir austan munu einnig hafa orðið rafmagns truflanir hjá Norðuráli á Grundartanga, hjá Ísal og í Hellisheiðarvirkjun.