Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis, gekk í gær á fund Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og gerði henni grein fyrir vinnu nefndarinnar. Nefndin stefnir að því að ljúka störfum í næstu viku.
Eitt af því sem nefndin ræðir er hvort Alþingi eigi að höfða mál á hendur ráðherra vegna hugsanlegra brota í starfi. Ef nefndin telur tilefni til að höfða slíkt mál leggur hún þingsályktunartillögu þessa efnis fyrir Alþingi með vísan til laga um ráðherraábyrgð. Ef að Alþingi samþykkir tillöguna verður Landsdómur kallaður saman. Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman.
Þingmannanefndin hefur komið saman daglega undanfarna daga og hún situr á fundi í dag þrátt fyrir að þingflokkar sitji nú á fundi. Í fundargerðum nefndarinnar kemur fram að hún hafi síðustu daga rætt talsvert um ráðherraábyrgðina. Á fundi 20. ágúst komu lögfræðingarnir Jónatan Þórmundsson, Ragnhildur Helgadóttir og Sigríður J.
Friðjónsdóttir fyrir nefndina til þess að ræða álitaefni tengd ráðherraábyrgð. Ræddu
þau við nefndarmenn og svöruðu spurningum þeirra um málefnið. Á föstudaginn komu Ragnhildi Helgadóttur og Sigríði J. Friðjónsdóttur aftur fyrir nefndina til að ræða um ráðherraábyrgð.