Fjórir á leiðinni út úr ríkisstjórn Jóhönnu

Árni Páll Árnason verður viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason verður viðskiptaráðherra. mbl.is/Ernir

Verið er að leggja lokahönd á breytingar á ríkisstjórn Íslands, sem m.a. fela í sér að þeir ráðherrar sem gjarnan hafa verið nefndir fagráðherrar, þau Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, láta af störfum.

Búist er við því að efnahagsmálin verði flutt frá viðskiptaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Jafnframt að einn ráðherra verði settur yfir sem velferðarráðherra og yrði þannig yfir félagsmála- og heilbrigðisráðuneytum, án þess að ráðuneytin yrðu sameinuð þegar í stað. Og sömuleiðis, að einn ráðherra verði settur yfir sem innanríkisráðherra, sem fæli það í sér að einn og sami ráðherrann yrði yfir dómsmála-, mannréttinda- og samgönguráðuneytum, án þess að ráðuneytin yrðu þegar í stað sameinuð.

Samkvæmt þessu munu þau Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Kristján Möller samgönguráðherra víkja úr ríkisstjórn, en Ögmundur Jónasson verður innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, en Árni Páll Árnason tæki sæti viðskiptaráðherra.

Heimildir úr þingflokki VG herma að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, muni sitja áfram sem ráðherra. Samfylkingunni hafi einfaldlega ekki tekist að afla áformum um að koma honum út úr ríkisstjórn nægs fylgis og ákveðnir þingmenn VG, þar á meðal Ögmundur Jónasson, hafi lýst því yfir, að þeir styddu Jón Bjarnason til áframhaldandi ráðherradóms, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert