Litlar skemmdir og engin slys

Álver Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði.
Álver Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði. Árni Sæberg

Unnið er að því að koma rafmagni aftur á álver Norðuráls á Grundartanga. Báðar raflínurnar til álversins slógu út. Ekki er enn ljóst hvað olli biluninni, að sögn Ágústs Hafberg, upplýsingafulltrúa Norðuráls. Hann sagði að litlar skemmdir hafi orðið og enginn hafi slasast við bilunina.

Slökkvilið Akraness var kallað að álverinu í kvöld vegna mikils reyks. Enginn eldur var þegar það kom en mikill reykur. Unnið var að reykræstingu en reykurinn barst úr raftengibúnaði. 

Ágúst var á leið að Grundartanga þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld. Hann sagði það vera vinnureglu að kalla til slökkvilið þegar reykur kemur upp og fá það til að reykræsta. Ágúst taldi að bilunin hafi ekki verið alvarleg og kvaðst vona að fljótt og vel gengi að koma rafmagninu aftur á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka