Nýliðinn ágústmánuður var einn af fimm hlýjustu mánuðum frá upphafi mælinga um vestan- og suðvestanvert landið. Í öðrum landshlutum var heldur svalara og svalast á Austfjörðum, að því er fram kemur í stuttu tíðarfarsyfirliti fyrir ágúst 2010.
Í Reykjavík er meðalhiti mánaðanna júní til ágúst í sumar sá hæsti sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga 1871, eða 12,2 stig. Litlu munar þó á sumrinu í ár og þeim sumrum sem eru nærri því eins hlý. Meðalhiti þessara mánaða árið 2003 var 12,1 stig og 1939 var hitinn ómarktækt lægri.
Meðalhitinn í Reykjavík í ágúst var 12,1 stig eða 1,8 stig yfir meðallagi. Heldur hlýrra var árin 2003, 2004 og 1880. Ágúst 1950 var jafnhlýr og nú og munur á ágúst 1939 og nú er ómarktækur.
Meðalhiti á Akureyri mældist 11,5 stigsem er 1,5 stigum yfir meðallagi. Ágúst varð hlýjasti sumarmánuðurinn á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 11,2 stig eða 1,1 stigi yfir meðallagi. Meðalhiti á Hveravöllum var 8,0 stig, 1,8 stigi yfir meðallagi.
Stutt tíðarfarsyfirlit Veðurstofu Íslands