Þingflokkur VG afgreiddi ekki tillögu um breytingar á ráðherraskipan flokksins á þingflokksfundi í dag. Þingflokkurinn mun hugsanlega koma saman aftur í kvöld eða fyrramálið. Stefnt er að því formlega verði gengið frá breytingum á ríkisstjórninni á Bessastöðum á morgun.
Ögmundur Jónasson sagði eftir þingflokksfund VG að hann væri tilbúinn til að taka sæti í ríkisstjórninni á ný. Hvorki Icesave eða umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu kæmi í veg fyrir það. Þau mál væru í eðlilegum farvegi.
Þingflokkur Samfylkingar sat einnig á löngum fundi í dag. Tillaga um breytingar á ráðherraskipan var ekki rædd á fundinum. Hins vegar hefur þingflokkurinn verið boðaður til fundar snemma í fyrramálið þar sem þessi mál verða rædd.
Flokksstjórn Samfylkingarinnar hefur verið boðuð til fundar kl. 10 í fyrramálið.