Umræða um störf stjórnarinnar

Alþingi kemur saman til fundar á morgun.
Alþingi kemur saman til fundar á morgun. Heiðar Kristjánsson

Þegar þing kemur saman til fundar á morgun fer fram umræða um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Skýrsla þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis mun hafa forgang í störfum þingsins meðan það starfar í september.

Þingfundur hefst eftir hádegið. Á fundinum verður Benedikts Gröndals, fyrrverandi forsætisráðherra minnst, en hann lést í sumar. Því næst er gert ráð fyrir að fram fari almenn umræða um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt lögum starfar þingið allt árið, en þingfundum er frestað yfir sumarið. Þingið mun því fjalla um mál sem ekki tókst að afgreiða fyrir þingfrestun í vor.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði þegar fundum var frestað í vor, að skýrsla þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis myndi fá forgang í störfum haustþingsins. Reiknað er með að skýrsla nefndarinnar verði lögð fyrir þingið í næstu viku.

Gert er ráð fyrir að þingfundir standi til 14. september. Nýtt þing kemur síðan saman til fundar 1. október, en þá verður fjárlagafrumvarp ársins 2011 lagt fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert