12 sveitarfélög fá aðvörun

Sundlaugin á Álftanesi.
Sundlaugin á Álftanesi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent 12 sveitarfélögum aðvörun vegna skuldsetningar og/eða slæmrar rekstrarafkomu og óskað eftir upplýsingum um hvernig sveitarstjórn hyggst bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins.

Samkvæmt ársreikningum sveitarfélaganna eru 22 sveitarfélög með skuldir umfram viðmiðun eftirlitsnefndar í A hluta reikningsskilanna, þ.e. 150% af heildartekjum, en 30 sveitarfélög þegar litið er á bæði A og B hluta. Peningaleg staða þessara sveitarfélaga er þó mjög misjöfn vegna peningalegra eigna sem kunna að nýtast á móti skuldum. Á árinu 2009 var rekstrartap á A hluta hjá 38 sveitarfélögum, að því er fram kemur á vef samgönguráðuneytisins.

Staðan verst hjá Álftanesi en Reykjanesbær er næstur í röðinni

Sveitarfélagið Álftanes er eins og kunnugt er í meðförum sérstakrar fjárhaldsstjórnar og því sendir Eftirlitsnefndin ekki sveitarfélaginu sérstaka aðvörun vegna fjárhagsstöðu þess. Niðurstaða ársreiknings 2009 hjá Sveitarfélaginu Álftanesi, sýndi að skuldir og skuldbindingar sem hlutfall af heildartekjum námu 518% og framlegð sem hlutfall af heildartekjum nam -0,3%.

Á næstu dögum mun Eftirlitsnefndin senda um 10 öðrum sveitarfélögum aðvörun og óska eftir upplýsingum um aðgerðir til að draga úr skuldsetningu og til að bæta rekstrarafkomu. Eru það sveitarfélög  þar sem skuldir og skuldbindingar sem hlutfall af heildartekjum er á bilinu 150-200%.

Sveitarfélögin tólf sem þegar hafa fengið aðvörun eru (raðað eftir skuldaröð) Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Sandgerðisbær, Fjarðabyggð, Grundarfjarðarbær, Hafnarfjörður, Fljótsdalshérað, Kópavogsbær, Vestmannaeyjabær, Djúpavogshreppur, Sveitarfélagið Árborg og Stykkishólmsbær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert