Um 20% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni í lágvöruverslunum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á höfðuborgarsvæðinu í gær. Í krónum talið var verðmunurinn 2678 krónur en vörukarfan var ódýrust í Bónusi þar sem að hún kostaði 13.547 krónur, og dýrust í Kosti, 16.225 krónur.
Karfan var 745 krónum dýrari í Krónunni en í Bónus eða 5% og 1208 króna munur var á körfunni á milli Nettó og Bónus eða 9%.
Minnstur verðmunur í könnunni var á mjólkurvörum og ostum en munurinn er yfirleitt á bilinu 2%-8%. Mestur verðmunur í könnunni var á rauðum chilli 162% og íslenskum gulrótum 158% en verðmunur á grænmeti og ávöxtum var almennt mikill. Sem dæmi má nefna að ódýrustu jónagold eplin kostuðu 111 kg/kg í Bónus en þau voru dýrust 219 kr/kg í Kosti, verðmunurinn er 97%.
Ódýrasta spínatið kostaði 1.550 kr/kg í Nettó og Kosti en það dýrasta 2.295 kr/kg í Bónus, verðmunurinn er 48%.
Verðmunur á dósamat og þurrvöru var einnig mikill. Ódýrasta jarðaberjasultan kostaði 544 kr/kg í Bónus en 1.238 kr/kg í Krónunni sem er 128% verðmunur. Ódýrustu Basmati grjónin fengust í Kosti á 411 kr/kg en þau voru dýrust í Nettó á 749 kr/kg, munurinn er 82%.
Í vöörukörfunni eru 43 almennar neysluvörur til heimilisins, svo mjólkurvörur, ostur, brauðmeti, morgunkorn, ávextir, grænmeti,
álegg, kjöt, drykkjarvörur, pakkavörur, dósamatur ofl.
Vörurnar í körfunni eru flestar frá þekktum vörumerkjum sem þó geta
verið seldar í mismunandi pakkastærðum eftir verslunum.
Könnunin var gerð í Bónusi Garðabæ, Krónunni Granda, Nettó Breiðholti og Kosti Dalvegi.