Í fréttatilkynningu frá aðstoðarmanni Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, í dag sagði að ekkert samkomulag hefði náðst milli stjórnarflokkanna um mál hollenska fyrirtækisins ECA. Það vill fá að skrá æfingaherþotur sínar hér landi. Skilja mátti frétt á á vef samgönguráðuneytisins þannig að Flugmálastjórn væri að undirlagi Kristjáns Möllers, fráfarandi samgönguráðherra, að hefja undirbúning að skráningu.
„Hér er ekki verið að hefja skráningu sem slíka heldur undirbúning og svara spurningum áður en ákveðið verður að fara á næsta stig," segir Kristján Möller. „Ég fór með þetta inn í ríkisstjórn fyrir nokkrum mánuðum og það var rætt en beðið um frekari gögn og sú gagnavinna hefur átt sér stað undanfarið. Fyrir 10-15 dögum átti ég fund með Jóhönnu og Steingrími um þetta mál.
Samkomulag varð um að aðstoðarmaður minn og aðstoðarmaður Steingríms færu í frekari gagnasöfnun, reyndu að svara ákveðnum spurningum og setja fram spurningar sem myndu vakna og skila okkur þessu, þá yrði hægt að fara með þetta á næsta stig."
Kristján segist hafa rætt þessi mál á fundi með bæði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á þriðjudag. Jóhanna hafi þá spurt sig hvort hann væri ekki búinn að senda bréf með beiðni um frekari gagnaöflum til Flugmálastjórnar og hann hafi svarað því játandi.
Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra samgöngumála, segist aðspurður halda að um einhvern misskilning sé að ræða. En hann muni þegar í stað setja sig inn í málið. Vinstri græn hafa áður lýst miklum efasemdum um beiðni ECA.