Sveitarfélög sem skulda 400% af heildartekjum og geta ekki selt eignir eða notað eignir til að lækka skuldir eru í mjög alvarlegri stöðu. Þetta segir Ólafur Nilsson, formaður Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Eftirlitsnefndin hefur sent 12 sveitarfélögum aðvörun vegna skuldsetningar og/eða slæmrar rekstrarafkomu. Nefndin óskar eftir upplýsingum um hvernig sveitarstjórnirnar ætla að bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélaganna.
„Það hefur hallað undan fæti hjá sveitarfélögunum og það eru þess vegna fleiri sem koma til skoðunar,“ sagði Ólafur þegar hann var spurður hvernig staða sveitarfélaganna hefði verið að þróast.
Nefndin hefur sett sér það viðmið að skoða sérstaklega sveitarfélög þar sem heildarskuldir eru yfir 150% af heildartekjum. Þetta hlutfall er 518% hjá Álftanesi og tæplega 400% hjá Reykjanesbæ og Vogum.
Ólafur sagði að sveitarfélög með svona miklar skuldir væru í mjög alvarlegri stöðu ef þau ættu ekki eignir sem hægt væri að selja eða nota til greiðslu skulda.
„Þegar skuldirnar eru orðnar 400-500% eiga þau vart fyrir vöxtum af
skuldum og þá gerist ekkert annað en að skuldirnar hækka eða
sveitarfélagið fer í þrot.“
Ólafur sagði að svigrúm sveitarfélaganna væri takmarkað að því leyti að útgjöld þeirra væru að stórum hluta lögbundin og tekjurnar sömuleiðis. Þau yrðu að nota rekstrarafgang til að standa skil á vöxtum og afborgunum skulda. Þess vegna væri mikilvægt að skuldug sveitarfélög skiluðu góðum rekstrarafgangi.