Um 50 krökkum úr Lindaskóla var bjargað úr farþegarútu sem festist í Krossá nú síðdegis. Brugðið var á það ráð að brjóta afturrúðu rútunnar og ferja börnin með handafli yfir á þurrt land. Hluti barnanna var nokkuð skelkaður eftir atvikið og var öllum hópnum því ekið heim og ferðinni aflýst.
Að sögn Ragnheiðar Hauksdóttur, staðarhaldara í Þórsmörk, má rekja óhappið til þess að rútan, sem er gerð út af Teiti Jónassyni, festist í eðju.
Þar sé á ferð aska eftir eldsumbrotin í vor sem valdi því að áin sé erfiðari yfirferðar en í venjulegu árferði.
Ragnheiður bendir hins vegar á að rútan sé aðeins með einu drifi og að stórir jeppar og rútur með drif á öllum hjólum geti því eftir sem áður komist yfir Krossá. Umrædd rúta hafi ekki átt erindi í Krossá.
Ragnheiður segir börnin hafa verið ferjuð yfir ána þar sem skjóls naut með aðferð sem sé í senn alvanaleg og hættulaus.
Því hafi engin hætta verið á ferðum.