Ögmundur Jónasson, sem tók við ráðherraembætti að nýju í dag, sagði í umræðu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar, að samvinnan í ríkisstjórn byggi ekki á múlbindingu heldur trausti og virðingu fyrir mismunandi skoðunum.
Ögmundur sagðist hafa verið að hlýða á fréttir Sjónvarpsins í gærkvöldi þar sem fréttamaður sagði, að með breytingum á ráðherrum væri verið að múlbinda órólegu deildina í VG. „Margur heldur mig sig," sagðist Ögmundur hafa hugsað og bætti við að þetta væri ekki traustvekjandi spegill í sálarlíf á fréttastofu. Þjóðin ætti líka rétt á alvöru fréttafólki, sem hvorki reyndi að múlbinda sig eða múlbinda annað fólk.
Í stjórnarsamstarfinu reyndu menn að finna áherslum sínum sameiginlegan farveg sem leiði til málamiðlana ef svo beri undir.