Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í lok umræðu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag, að ástæða væri til að hafa áhyggjur af stjórnarandstöðunni.
Sagði Jóhanna, að ræður fulltrúa stjórnarandstöðunnar í umræðunni hefðu einkennst af bölmóði og svartsýni eins og ekkert sæist nema myrkur framundan. Sumir hefðu m.a. talað um að stefna stjórnarinnar væri helstefna fyrir heimili og fyrirtæki. „Hvaða orð myndu menn nota ef allt væri í kaldakoli?" spurði Jóhanna.
Hún sagði að stjórn og stjórnarandstaða ætti að reyna að skiptast á skoðunum af raunsæi og í takt við sannleikann í samfélaginu svo almenningur taki mark á stjórnmálamönnum.
„Heimilin og fyrirtækin í landinu þurfa á allt öðru að halda en þessum bölmóði," sagði Jóhanna.