Ráðherrabreytingar sjónarspil

Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar, að hvert sem litið væri blasti við stefnuleysi og ákvarðanafælni ríkisstjórnarinnar.

Sagði  Bjarni, að ráðherrabreytingar, sem gerðar voru í dag, séu ekkert annað en sjónarspil. Á stjórnarheimilinu sé hver höndin upp á móti annarri og gerð sé úrslitatilraun til að þjappa sér saman um það sem ekkert er.

Síðan segði fjármálaráðherra að landið væri að rísa. Sem jarðfræðingur ætti hann að vita, að slíkt gæti boðað váleg tíðindi. 

Bjarni sagði rétt, að svörtustu spár um samdrátt og atvinnuleysi hefðu ekki gengið eftir sem betur færi. Það mætti einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða og ákvarðana fyrri ríkisstjórnar sem hefði tekið upp samstarf um efnahagsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Bjarni sagði, að ríkisstjórnin væri afturhaldsstjórn enda væru allir ráðherrar nema einn úr gamla Alþýðubandalaginu. Það eina sem ríkisstjórnin byði upp á væri að setja á fót nýjar stofnanir og nýjar nefndir. 

Sagði Bjarni, að þjóðin væri ekki að bíða eftir nýjum andlitum í ráðherrastólum heldur nýjum aðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert