Þingflokkar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna munu hittast á fundi í Alþingishúsinu klukkan 9. Á þingflokksfundunum verður rætt um ráðherraskipan en ríkisráðsfundur hefur verið boðaður á Bessastöðum klukkan hálftólf, en þar verður ný ríkisstjórn formlega ákveðin.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins ríkir ekki einhugur um skipan Guðbjarts Hannessonar í ríkisstjórnina. Kynjahlutfallið yrði þá ekki lengur jafnt í ráðherraliðinu og því kemur til álita að Oddný Harðardóttir komi ný inn í ríkisstjórn ásamt Ögmundi Jónassyni í stað Guðbjarts.
Ljóst þykir að Gylfi Magnússon, Ragna Árnadóttir og Álfheiður Ingadóttir hverfi úr ríkisstjórn í dag.
Þingflokkar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna funduðu í gær og ræddu meðal annars nýja ráðherraskipan.
Þá boðaði Jóhanna Sigurðardóttir flokksstjórnarfund sem hefst klukkan tíu í dag, en aðeins eitt mál er á dagskrá fundarins, áform um breytingar á ríkisstjórn.
Alþingi kemur saman í dag eftir sumarhlé og hefst þingfundur klukkan 13:30 miðdegis. Ekki verður um formlega þingsetningu að ræða því þingstarfið nú er lokasprettur 138. löggjafarþingsins, sem sett var í fyrrahaust.
Við upphaf fundar mun þingforseti minnast Benedikts Gröndals, fyrrverandi forsætisráðherra, sem lést í sumar. Því næst er gert ráð fyrir að fram fari almenn umræða um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar.