Yfirgefa ríkisstjórn

Ríkisstjórnin sem sat sinn síðasta ríkisráðsfund í dag á Bessastöðum
Ríkisstjórnin sem sat sinn síðasta ríkisráðsfund í dag á Bessastöðum mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeir fjórir ráðherrar, sem víkja úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur yfirgáfu ríkisráðsfund á Bessastöðum rétt í þessu.  Tveir nýir ráðherrar taka sæti í ríkisstjórninni en í heild fækkar ráðherrum úr 12 í 10.

Kristján L. Möller sagðist stoltur af sínum störfum og beindi þeim tilmælum til eftirmanns síns að láta ekki samgöngumálin týnast í stóru ráðuneyti innanríkismála. Ögmundur Jónasson tekur nú við ráðuneytum samgöngu- og sveitarstjórnarmála og dómsmála- og mannréttindamálum. 

Þá kvaðst Gylfi Magnússon, sem lætur af embætti efnahags- og viðskiptaráðherra, gera ráð fyrir því að hann snúi aftur í Háskóla Íslands til kennslu. Hann kvað viðbrögð sín við dómum Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingu íslenskra lána ekki hafa flýtt fyrir brotthvarfi hans úr ríkisstjórn, uppákoman hafi þó verið óþægileg. Árni Páll Árnason tekur við efnahagsmálum í ríkisstjórninni en hann hefur verið félags- og tryggingamálaráðherra.

Ragna Árnadóttir, sem lætur af embætti dóms- og mannréttindaráðherra, sagði í samtali við fréttamenn að hún væri ekki viss um hvað taki við hjá henni. Henni hafi liðið vel í ráðuneytinu en haft nóg að gera. Þá kvað hún það ekki vera vandamál að nýr ráðherra dómsmála sé ekki löglærður enda eigi það sér fordæmi.

Álfheiður Ingadóttir, sem lætur af embætti heilbrigðisráðherra, segist kveðja sátt og þessar breytingar styrki ríkisstjórnina vegna þess að ráðherrum fækki. Guðbjartur Hannesson tekur við heilbrigðismálum og félags- og tryggingamálum. 

Hin nýja ríkisstjórn situr enn á ríkisráðsfundi.

Ný ríksstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum
Ný ríksstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert