Betri staða efnahagsmála en búist var við

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ítrekaði á Alþingi í dag að heildarmynd efnahagsmála væri mun bjartari en áður hefði verið spáð. Rétt væri hins vegar að nýjar upplýsingar sýndu að hagvöxtur væri nú minni en menn hefðu reiknað með. 

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, að í umræðum um stefnu og störf ríkisstjórnarinnar í gær hefðu Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, dregið upp ótrúlega glansmynd  af stöðu efnahagsmála, sem ætti lítið skylt við raunveruleikann. 

Einar sagði það rétt, að samdráttur í landsframleiðslu hafi orðið minni á síðasta ári en gert var ráð fyrir og kreppan varð ekki eins djúp og óttast var. Það væri hins vegar fyrst og fremst að þakka stefnumótun fyrri ríkisstjórnar um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Nú væru hins vegar verk eða verkleysi ríkisstjórnarinnar að koma í ljós en Hagstofan hefði í morgun birt tölur sem sýndu, að landsframleiðsla dróst saman um 3,1% að raungildi milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Spurði Einar hvernig stæði á því að tölurnar væru með þessum hætti og hvort verið gæti, að ekki væri allt jafn blúndulagt og gott í efnahagsmálum, og ráðherrar vildu vera láta.

Sjá ekki ljósið

Jóhanna sagði, að enn og aftur gætti þess í umræðunni, að stjórnarandstaðan sjái ekki ljósið framundan í efnahagsmálum. Fyrir lægi, að hagvöxtur hefði mælst á síðustu ársfjórðungum, hálfu ári fyrr en áætlað var, og þess sæi merki í fjárlagagerðinni nú, þótt  rétt væri, að spár um hagvöxt nú væru lægri en menn reiknuðu með.

Einar sagði, að Jóhanna hefði beitt Kína-Albaníuaðferðinni og skammað sig fyrir boðskap Hagstofunnar. Ljóst væri hins vegar, að ríkisstjórnin væri með aðgerðaleysi sínu, að hægja á þeim bata, sem ella hefði verið uppi á borðum. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert