Engin leyfi veitt vegna herþotuskráningar

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið segir, að engin leyfi hafi verið veitt vegna skráningar herþotna hollenska fyrirtækisins ECA program á Íslandi. Verið sé að fjalla um umsókn ECA um skráningu flugvéla hér á landi vegna hugsanlegrar þjálfunarstarfsemi.

Í tilkynningu segir, að Kristján L. Möller, fráfarandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafi falið Flugmálastjórn með bréfi 31. ágús að hefja undirbúning að skráningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í bréfinu komi skýrt fram, að með því sé ekki veitt heimild til skráningar heldur einungis að kanna fjölmörg atriði sem þurfi að liggja fyrir áður en afstaða sé tekin til umsóknar ECA.

Þá hafi Flugmálastjórn í bréfinu verið falið að kanna tiltekin atriði sem varða meðal annars eðli starfseminnar, viðbrögð alþjóðaflugheimsins en þar hafi Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta og reglur hér að lútandi í nágrannaríkjum.

„Ljóst má vera að allnokkur undirbúningur þarf að eiga sér stað ef setja á reglur hér að lútandi sem eru í samræmi við íslensk lög á þessu sviði og alþjóðaskuldbindingar. Að fengnum þessum upplýsingum er fyrst unnt að meta hvaða meðferð umrædd umsókn ECA fær hjá íslenskum yfirvöldum. Þessi skilningur ráðuneytisins hefur verið ítrekaður við Flugmálastjórn," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert