Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segist ekki átta sig á hvað felist í tilkynningu formanna ríkisstjórnarflokkanna um að þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið verði undirbúin ef ekki náist sátt um breytingar á fiskveiðistjórnkerfinu.
Adolf bendir á að nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sé ekki búin að skila niðurstöðum. Það sé erfitt fyrir menn að vinna að sátt þegar hótað sé að fara allt aðra leið ef einhver er ósáttur við útkomuna. Það sé heldur ekki ljóst hvað þurfi að vera margir ósáttir til að málið verði sett í þjóðaratkvæði, að því er haft er eftir Adolf í Morgunblaðinu í dag.