Greiðslur til bænda rangt færðar í bókhaldi ríkisins

mbl.is/Árni Torfason

Ríkisendurskoðun segir, að hluti greiðslna til sauðfjár-, garðyrkju- og kúabænda í samræmi við búvörusamninga,  hafi verið rangt færður í bókhaldi ríkisins.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd búvörusamninga. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum  gert nokkra samninga við hagsmunasamtök bænda um fjárhagslegan stuðning ríkisins við landbúnað. Um er að ræða styrki til sauðfjárbænda, kúabænda og garðyrkjubænda. Bændasamtök Íslands hafa séð um að greiða bændum út styrkina og annast aðra umsýslu samninganna.

Í skýrslunni kemur fram, að greiðslur til sauðfjár- og garðyrkjubænda hafi að mestu verið í samræmi við ákvæði samninga og síðari breytingar á þeim. Hins vegar hafi hluti greiðslna til  sauðfjár-, garðyrkju- og kúabænda  verið rangt færður í bókhaldi ríkisins.

Segir Ríkisendurskoðun, að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið hafi nú breytt verklagi sínu til að koma í veg fyrir villur af þessu tagi.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að sinna betur eftirliti með framkvæmd búvörusamninga og greiðslum vegna þeirra. Þá þarf ráðuneytið að auka gagnsæi útreikninga sem búa að baki þessum greiðslum svo að þingmenn, eftirlitsaðilar og almenningur eigi auðveldara með að glöggva sig á þeim.

Loks telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að gerðir verði formlegir samningar um þóknanir sem ríkið greiðir Bændasamtökum Íslands fyrir umsýslu samninganna. 

Vefur Ríkisendurskoðunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert