Veður hamlar nú ferðum Herjólfs frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn, en ferðinni sem átti samkvæmt áætlun að fara klukkan 10:30 var frestað til klukkan 13. Að sögn Ívars Gunnlaugssonar skipstjóra Herjólfs er ekki svo slæmt í sjóinn en hinsvegar allt of hvasst til að sigla.
„Ég sigli bara um leið og ég get siglt. Ég ætlaði að fara klukkan 13 en verð sennilega að fresta því líka. Eftir því sem Veðurstofan segir þá á veðrið ekki að ganga niður fyrr en seinni partinn og þá gerist það hægt. Við verðum að fara eftir veðri og vindum og tryggja að það sé öruggt fyrir fólk og skip."
Veðurkort Veðurstofunnar sýnir suð-austan 22 metra á sekúndu við stórhöfða klukkan 12. Samkvæmt heimildum Mbl.is sýndi öldudufl við Landeyjahöfn 2,6 metra ölduhæð. Ívar segist allt eins eiga von á því að hann geti ekki siglt frá Eyjum fyrr en um klukkan 17 í dag í fyrsta lagi.
Þessi röskun vegna veðurs hefur áhrif á ferðaáætlun fjölda fólks því uppselt var í allar ferðir Herjólfs í dag. Samkvæmt tilkynning frá Eimskipum hefur ferðinni sem frestað var til kl. 13 nú verið frestað áfram til kl.14.