„Kjarasamningarnir verða erfiðir. Það er alveg ljóst að eitt af lykilatriðunum í því að koma efnahagsmálum hér í lag er að krónan styrkist frekar þannig að sú leiðrétting geti átt sér stað á þeirri kjaraskerðingu sem orðið hefur frá hruni,“ segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ.
„Hér ég á við leiðréttingu bæði á milli atvinnugreina og í kjörum almennings. Það myndi hjálpa verulega til í þeim kjarasamningum sem framundan eru,“ segir Óalfur Darri, aðspurður um áhrif styrkingar krónunnar á undirbúning kjarasamninga í haust.
Ólafur Darri kveðst gera ráð fyrir að íslenska hagkerfið sé við það að ná botninum í niðursveiflunni.
„Ég óttast hins vegar að vegurinn fram undan geti verið erfiður [...] Hvað varðar styrkingu krónunnar mun hún hjálpa okkur. Sterkara gengi er lykillinn að því að við munum komast skikkanlega í gegnum næstu kjarasamninga.“
Ólafur Darri kveðst aðspurður gera ráð fyrir að viðræðuáætlanir vegna komandi kjarasamninga liggi fyrir um næstu mánaðamót. Kjarasamningar séu lausir í lok nóvember.