Söfnuðu fyrir bændur á gossvæðinu

Norsku bændasamtökin stóðu í samvinnu við ýmis fyrirtæki í landbúnaði í Noregi fyrir fjársöfnun fyrir bændur á gossvæðinu við Eyjafjallajökul. Alls söfnuðust 406 þúsund norskar krónur, jafnvirði 7,7 milljóna íslenskra króna, og var féð afhent formlega í dag á fundi samtaka bænda á Norðurlöndunum.

Fram kemur á vef Bændasamtaka Íslands, að Nils T. Bjørke, formaður Norges bondelag, afhenti Eiríki Blöndal, framkvæmdastjóra BÍ, og Ernu Bjarnadóttur, hagfræðingi samtakanna, peningagjöfa. Sagði hann að norskir bændur hefðu alltaf átt gott samstarf við stéttarsystkin hér á landi og það hefði því ekki verið erfitt að sameina norska bændur um að láta fé af hendi rakna í söfnunina.

Eiríkur Blöndal sagði jafnframt að styrkurinn hefði þegar komið í góðar þarfir því afleysingaþjónusta á gossvæðinu væri m.a. fjármögnuð með norsku peningagjöfinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert