Þingmenn Sjálfstæðisflokks í menntamálanefnd Alþingis leggja til, að frumvarp menntamálaráðherra um ný fjölmiðlalög verði lagt til hliðar og vinna verði hafin við heildstæða rammalöggjöf þar sem meðal annars sé tekið á samkeppnismálum einkarekinna fjölmiðla og Ríkisútvarpsins.
Þá segja þeir að huga verði að breytingu á samkeppnislögum svo markaðsráðandi fyrirtæki á öðrum sviðum geti ekki misnotað stöðu sína með því að beina viðskiptum aðeins til eins fjölmiðils.
Þingmennirnir Óli Björn Kárason og Ragheiður Ríkharðsdóttir, vara í áliti sínu m.a. við þeim valdheimildum, sem Fjölmiðlastofu séu veittar samkvæmt frumvarpinu og lúti að afskiptum af skipulagi og vinnubrögðum á fjölmiðlum. Eindregið vara þeir við því að veita opinberri stjórnsýslustofnun.
Þá segja þeir, að löggjafinn þurfi að marka skýra stefnu um eignarhald á fjölmiðlum og tryggja gegnsæi í þeim efnum. Reglur um eignarhald fjölmiðla verði ekki settar án þess að tryggt verði að eðlileg og sanngjörn samkeppni ríki á fjölmiðlamarkaði.
„Í þessu sambandi verður að huga að breytingum á samkeppnislögum sem miða meðal annars að því að markaðsráðandi fyrirtæki á öðrum sviðum geti ekki misnotað stöðu sína með því að beina viðskiptum sínum aðeins til eins fjölmiðils, óháð eðlilegum viðskiptalegum sjónarmiðum. Slíkt skekkir samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði og dregur um leið úr sjálfstæði þess fjölmiðils sem nýtur auglýsingatekna frá viðkomandi aðila," segir m.a. í áliti sjálfstæðismanna.