Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag ekki hafa vitað af lögfræðiálitum, sem gerð voru fyrir Seðlabankann um gjaldeyrislán í maí 2009.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím hvort hann hefði vitað af þessum álitum. Steingrímur sagðist ekki hafa fengið vitneskju um þau fyrr en löngu síðar en hann hefði að sjálfsögðu fylgst með opinberri umræðu sem hafin var á þessum tíma um gjaldeyrislánin.
Sigurður Kári sagði það kæmi verulega á óvart, að ráðherra, sem stóð í því á þessum tíma að stofna nýja banka, skyldi ekki hafa verið upplýstur um að þessi lán væru ólögmæt. Lýsti Sigurður Kári því yfir að það hefðu verið svik við fólkið í landinu, sem tók þessi lán, að upplýsa ekki um þessi lögfræðiálit strax. Um væri að ræða afglöp, vanrækslu og hirðuleysi sem ríkisstjórnin bæri ábyrgð á.
Steingrímur sagði þetta stóryrði sem engar innistæður væru fyrir. Á þessum tíma hefði verið komin upp umræða um að óvíst væri að lánasamningarnir væru allir í lagi og það væri í raun ævintýralegt að jafn umfangsmikil lánastarfsemi skyldi hafa viðgengist í áratug án þess að nokkur eftirlitsstofnun gerði athugasemdir við það.