Bronsstytta af geirfugli eftir bandaríska myndlistarmanninn Todd McGrain var afhjúpuð í Reykjanesbæ í gær.
Styttan stendur á Valahnúki og horfir fuglinn til Eldeyjar en talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn á þeirri eyju hinn 3. júní í 1844.
Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, er ekki sáttur við verkið og segir hugmyndina að því hættulega nálægt verki Ólafar Nordal frá árinu 1998, styttu af geirfugli sem stendur í flæðarmálinu við Skerjafjörð í Reykjavík og horfir í átt að hafi. „Það er náttúrlega bara neyðarlegt, burtséð frá öllu siðferði og lögum, fyrir listamann að gera eitthvað svona,“ segir Hafþór um verk McGrains, í Morgunblaðinu í dag.