Rólegra var hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt en á sama tíma í fyrra vegna Ljósanæturhátíðarinnar sem nú stendur yfir í Reykjavnesbæ. Sex gistu fangageymslur vegna ölvunar að sögn vakthafandi lögreglumanns en það eru færri en í fyrra.
Kvaðst hann telja veðrið hafa sitt að segja um rólegheitin en nokkuð mun hafa blásið á gesti hátíðarinnar í gær. Því hafi færri verið á ferli þó að nokkuð hafi lægt með kvöldinu.
Þá munu færri vera á hátíðinni en í fyrra en sagðist lögreglumaður eiga von á að fleiri gesti bæri að í dag. Fjölskylduhátíðin Ljósanótt hófst á fimmtudagsmorgun og lýkur henni annað kvöld. Er hún árlegur viðburður í bænum.