Sex voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn á Reykjanesbraut. Þrír eru sagðir alvarlega slasaðir, miðað við fyrstu tilkynnningar, og þurfti að klippa báða bílana til að ná tveimur farþeganna út. Byrjað er að hleypa umferð til suðurs, til Keflavíkur, eftir Reykjanesbraut en umferð til borgarinnar fer um hjáleið.
Hjá Landspítalanum fengust þær upplýsingar að tveir hefðu verið lagðir inn á gjörgæslu en hinir fjórir á almennar deildir.
Samkvæmt Friðjóni Daníelssyni, aðstoðarvarðstjóra hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, yfirgáfu síðustu bílar slökkviliðsins slysstaðinn um kl. 15. „Við sendum tvo dælubíla og sex sjúkrabíla á vettvang. Allt okkar lið og allur okkar slagkraftur var kominn á Reykjanesbrautina. Við náðum að halda eftir einum dælubíl í borginni og hringdum úr varalið því það þurfti líka að sinna sjúkraflutningunum eftir bestu getu. Það er komið nokkuð gott ástand aftur en það var í nokkrar mínútur sem við vorum fáliðaðir í bænum.“
Vonast er til að umferð komist í lag á næsta hálftímanum.